Blóðgjafafélag Íslands BGFÍ

The Blood Donors Society of Iceland


BGFÍ

Nafn:

BGFÍ Blóðgjafafélag Íslands

Farsími:

8930733

Afmælisdagur:

16. júlí 1981

Heimilisfang:

Snorrabraut 60, 101 Reykjavík

Kennitala:

700781-0389

Bankanúmer:

512-14-100900

Blóðgjafar á Facebook

Blóðgjafar geta nú merkt prófíl mynd sína á Facebook með merki Blóðgjafafélags Íslands með því að smella á merkið hér að neðanTenglar

17.11.2011 18:01

Viðtal við formann í Morgunblaðinu

Nýverið birtist í Morgunblaðinu viðtal við formann BGFÍ þar sem hann greindi frá þörfinni fyrir nýja blóðgjafa og áformum félagsins um útgáfu fræðsluefnis.Vantar fleiri blóðgjafa og meira blóð
• Um 9.000 einstaklingar gefa allt að 16.000 blóðskammta
• Skortir fé til þess að skipuleggja starfið og ná til blóðgjafa
Um 9.000 einstaklingar hérlendis gefa allt að 16.000 blóðskammta á ári. Ólafur Helgi Kjartansson, formaður Blóðgjafafélags Íslands, BGFÍ, segir að þessir gjafar gegni gríðarlega mikilvægu hlutverki, en ekki sé nóg að gert. Þörfin sé um 70 skammtar að meðaltali á dag og mikilvægt sé að stjórnvöld tryggi nægt fé í utanumhald um málaflokkinn, því það kosti sitt að skipuleggja starfsemina, halda utan um blóðgjafa og kalla inn nýja.
Blóðbankinn tekur á móti blóði í Reykjavík og á Akureyri auk þess sem hann heldur úti Blóðbankabílnum, en áætlun hans er birt á vef bankans (www.blodbankinn.is). Þar má auk þess sjá að nú vantar helst blóð í O-, O+ og AB+ blóðflokkum.
Vilja ná til unga fólksins
Ólafur Helgi segir að svo virðist sem yfirvöld geri sér oft ekki grein fyrir mikilvægi blóðgjafa og gangi að þeim sem vísum. Tilfellið sé að þó að blóðgjafar bregðist alltaf vel við þegar leitað sé eftir blóði reynist Blóðbankanum oft erfitt að safna nýjum blóðgjöfum þegar á bjátar og fá blóðgjafa reglulega í Blóðbankabílinn þegar hann er á ferðinni.
„Það hefur gengið þokkalega hjá okkur á Selfossi og við fáum yfirleitt um 70 blóðgjafa í bílinn þegar hann er hjá okkur, en þeir voru 86 í september og aðeins 57 í október,“ segir hann. Ólafur Helgi, sem er sjálfur á meðal reglulegra blóðgjafa og gaf síðast á föstudag, segir mikilvægt að styrkja hópinn.
„Við þurfum að fjölga í hópnum, ná sérstaklega til unga fólksins, fá blóðgjafa til að koma í bílinn í auknum mæli og gefa blóð reglulega,“ segir hann. ,,Aldursdreifing þjóðarinnar er að breytast og hún að verða eldri. Það fjölgar í eldri flokkunum og þörfin fyrir blóð og blóðgjafa eykst þar af leiðandi.“
Fræðslubók á döfinni
BGFÍ er góðgerðafélag og er allt starf unnið í sjálfboðaliðsvinnu. Ólafur Helgi segir að til þess að ná til unga fólksins hafi verið stofnuð sérstök ungmennadeild BGFÍ auk þess sem til standi að gefa út fræðslubókina Blóðið þitt, en fjármagn vanti til þess að ljúka verkinu. Hugmyndin sé að dreifa bókinni til framhaldsskólanema og vekja þannig athygli og áhuga þeirra á málinu og mikilvægi þess.
Ólafur Helgi áréttar að heilbrigðiskerfið geti ekki verið án blóðgjafa. Hann bendir á að í Danmörku greiði heilbrigðiskerfið ákveðna fjárhæð til danska blóðgjafafélagsins (Bloddonorerne i Danmark, BID) og þannig fái það fjármagn til að safna nýjum blóðgjöfum. Í einum blóðbanka í Boston séu þrír markaðsráðgjafar í fullu starfi við það að reyna að ná til fólks. Mjög gott starf sé unnið í Blóðbankanum en fleira fólk þurfi til að sinna málinu. „Þó að um sé að ræða gjöf frá hjartanu þarf fjármagn til þess að ná til blóðgjafa,“ segir hann.
Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is